Samkvæmt húsreglum sem gilda í búsetuúrræðum Útlendingastofnunar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem dvelja í sameiginlegu húsnæði, eru gestakomur að meginreglu óheimilar.
Í slíkum búsetuúrræðum búa íbúar þröngt en algengt er að tveir eða fleiri deili herbergi. Íbúarnir koma frá ólíkum löndum, hafa ólíkan bakgrunn og oft og tíðum standa tungumálaörðugleikar samskiptum þeirra fyrir þrifum. Húsreglurnar eru settar í þeim tilgangi að íbúarnir taki tillit hver til annars og geti búið saman í sátt og samlyndi.
Umsækjendur um alþjóðlega vernd eru upp til hópa í afar viðkvæmri stöðu. Þannig hafa margir þeirra sætt pyndingum og ofbeldi eða þurft að flýja stríðsátök. Reglurnar hafa því einnig þann tilgang að hindra óþarfa umrót og rask í lífi þeirra sem eiga um sárt að binda.
Undantekningar á reglum um gestakomur eru gerðar t.d. fyrir sjálfboðaliða á vegum Rauða krossins. Undantekningar eru hins vegar að meginreglu ekki gerðar fyrir fjölmiðla.
Margir umsækjendur um alþjóðlega vernd sótt um vernd vegna þess að þeir óttast ofsóknir yfirvalda í heimalandi sínu, til dæmis vegna stjórnmálaþátttöku sinnar, og öryggis þeirra vegna getur verið varhugavert fyrir þá að koma fram í fjölmiðlum. Óábyrgt væri af Útlendingastofnun að skapa aðstæður fyrir slíkt með því að heimila fjölmiðlum að taka viðtöl og taka upp efni í hljóð eða mynd á dvalarstað hælisleitenda því taka verður tillit til þess að sjáist aðrir en þeir sem eru til viðtals í mynd kann það að vekja athygli yfirvalda í heimalandi eða annarra aðila sem æskilegt er að viti ekki hvar viðkomandi er niðurkominn.
Til þess að gera undantekningu á reglum um gestakomur fyrir fjölmiðil en tryggja jafnframt að sjónarmiðum um friðhelgi heimilis og einkalífs allra íbúa sé fullnægt yrðu allir heimilismenn í tilteknu búsetuúrræði að veita samþykki sitt fyrir heimsókn fjölmiðils á dvalarstað og myndi Útlendingastofnun þurfa að fá staðfestingu á slíku samþykki áður en af heimsókn fjölmiðils gæti orðið.
Þessi skilyrði setja tjáningarfrelsi hælisleitenda ekki skorður enda er þeim frjálst að mæla sér mót við fjölmiðla og aðra utan dvalarstaða sinna.