Umsækjandi um alþjóðlega vernd á Íslandi getur sótt um bráðabirgðadvalar- og atvinnuleyfi á meðan umsókn hans er til meðferðar. Slíkt leyfi myndar ekki grundvöll fyrir búsetuleyfi og er háð ákveðnum skilyrðum. Leyfið er einungis veitt sem tímabundið úrræði þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir í máli umsækjanda.
Skilyrði 77. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 fyrir veitingu bráðabirgðardvalarleyfis eru eftirfarandi:
a. Að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda,
b. að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er,
c. að ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda,
d. að ekki liggi fyrir beiðni um að annað ríki taki við honum á ný, sbr. 1. mgr. 36. gr.
e. að umsækjandi hafi veitt upplýsingar og atbeina sinn til að aðstoða við úrlausn máls.
Í 2. mgr. 77. gr. er að finna undanþáguheimild frá b og d lið.
Nánar um undanþágu b liðar
Heimilt er að veita undanþágu frá því að fullnægjandi skilríki hafi verið lögð fram ef ekki leikur vafi á því að umsækjandi hafi veitt réttar upplýsingar, og að umsækjanda sé ómögulegt að afla skilríkja eða ef það er ekki talið réttlætanlegt og eða ómögulegt að umsækjanda sé gert að afla sér skilríkja. Vakin er sérstök athygli á því að ofangreind undanþága á ekki við hafi umsækjandi fengið endanlega synjun á umsókn um hæli og ber honum þá að afla sér skilríkja.
Nánar um undanþágu d liðar
Heimilt er að veita undanþágu 90 dögum eftir að umsókn er lögð fram ef hún er enn til vinnslu.
Uppfylli umsækjandi ekki ofangreind skilyrði getur hann ekki gengið út frá því að fá útgefið leyfi. Óski umsækjandi eftir undanþágu frá ofangreindum skilyrðum þá metur Útlendingastofnun í hverju tilfelli hvort skilyrði séu til staðar til að veita undanþágu.
Umsækjandi getur fengið staðfestingu á að hann uppfylli skilyrði 77. gr. hjá Útlendingastofnun.
Til að sækja um bráðabirgðadvalar- og atvinnuleyfi þarf að leggja fram:
- Umsókn um bráðabirgðadvalarleyfi, í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.
- Umsókn um atvinnuleyfi vegna sérstakra aðstæðna, í frumriti og undirrituð af umsækjanda og atvinnurekanda og staðfest af viðeigandi stéttarfélagi.
- Ráðningarsamning sem nær lágmarksframfærslu. Samningurinn þarf að vera í frumriti og undirritaður af umsækjanda og atvinnurekanda.
- Húsnæðisvottorð eða leigusamningur.
- Greiðslukvittun fyrir afgreiðslugjaldi, kr. 15.000.
Annað sem þarf að liggja fyrir svo hægt sé að afgreiða umsókn:
- Sjúkrakostnaðartrygging. Umsækjandi þarf að leggja fram staðfestingu tryggingar sem gildir jafn lengi og bráðabirgðadvalarleyfið frá tryggingafélagi með starfsleyfi á Íslandi.
- Læknisvottorð sóttvarnarlæknis.