• Íslenska
  • English (UK)

Sidebar

  • Heim
  • Um Útlendingastofnun
    • Útlendingastofnun
    • Skipurit
    • Fréttir
    • Greinar
    • Tölfræði
      • Tölfræði leyfasviðs
      • Tölfræði verndarsviðs
    • Ársskýrslur
    • Gjaldskrá
    • Eyðublöð
    • Afgreiðslutími
    • Samstarfssamningar
    • Lög og reglugerðir
    • Algengar spurningar
    • Hafa samband
  • Eyðublöð
  • Afgreiðslutími
  • Algengar spurningar
  • Hafa samband
  • Lög og reglugerðir
  • Tölfræði
    • Tölfræði leyfasviðs
    • Tölfræði verndarsviðs
  1. Heim
  2. Um Útlendingastofnun
  3. Fréttir

Tímabundin takmörkun á útgáfu dvalarleyfiskorta

Details
06 Des. 2019

Útlendingastofnun þarf að takmarka útgáfu dvalarleyfiskorta næstu vikurnar vegna þess að lítið er eftir af kortabirgðum stofnunarinnar. Ný tegund dvalarleyfiskorta verður tekin í notkun fyrri hluta næsta árs.

Vinsamlegast athugið að takmarkanir á útgáfu dvalarleyfiskorta hafa ekki áhrif á afgreiðslu og útgáfu dvalarleyfa.

Til þess að nýta sem best þau kort sem eftir eru mun stofnunin grípa til eftirfarandi ráðstafana þangað til nýju kortin verða tekin í notkun:

  • Ekki verða gefin út dvalarleyfiskort til þeirra sem fá útgefið dvalarleyfi skemur en í 6 mánuði.
  • Ekki verða gefin út ný dvalarleyfiskort þegar einstaklingar skipta um dvalarleyfisgrundvöll, ef þeir eiga kort í gildi.
  • Ekki verða gefin út ný dvalarleyfiskort til einstaklinga með ótímabundin dvalarleyfi.
  • Ekki verða gefin út dvalarleyfiskort vegna glataðra korta.

Einstaklingar sem ekki fá útgefin dvalarleyfiskort við veitingu dvalarleyfis vegna þessara ráðstafana munu fá senda staðfestingu á því að leyfi hafi verið útgefið og til hve langs tíma en að ekki verði gefið út kort.

Þurfi einstaklingar sem ekki hafa fengið dvalarleyfiskort að ferðast til útlanda geta þeir fengið útgefin ný dvalarleyfiskort, ef þeir framvísa ferðagögnum t.d. flugmiða.

Útlendingastofnun biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda og bendir þeim sem hafa frekari spurningar á að hafa samband við stofnunina gegnum This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. .

Tillit tekið til sérstakra aðstæðna

Details
04 Des. 2019

Útlendingastofnun vill koma því á framfæri að ávallt er beitt vægustu meðulum sem í boði eru við framfylgd útlendingalaga. Fólki sem hefur ekki komið löglega til landsins eða fengið synjun um leyfi til að dvelja hér á landi er nær alltaf gefinn sá kostur að yfirgefa landið af sjálfsdáðum. Þegar mál hafa fengið endanlega meðferð hjá stjórnvöldum og allar aðstæður leyfa er ekki hægt að gera annað en að vísa úr landi, annað hvort með frávísun eða brottvísun.

Fram kom í fjölmiðlum í gær að fólki frá Georgíu, sem dvalið hefur á Íslandi frá því síðasta haust, verði nú vísað aftur til heimalandsins, en meðferð máls þeirra hér á landi hlaut þá niðurstöðu að þau uppfylli ekki skilyrði um alþjóðlega vernd, samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem um hana gilda.

Um er að ræða par og tæplega ársgamalt barn þeirra. Parinu var synjað um alþjóðlega vernd hér á landi öðru sinni þann 26. nóvember í fyrra. Fjórum mánuðum áður hafði þeim verið fylgt til heimalandsins með aðstoð stoðdeildar ríkislögreglustjóra í kjölfar synjunar fyrri umsóknar þeirra um alþjóðlega vernd.

Flutningur fólksins nú er skipulagður með aðkomu fagaðila bæði hér á landi og í Evrópu. Með í för er eftirlitsaðili á vegum Mannréttindaskrifstofu Íslands og einnig fulltrúi barnaverndar. Tekið skal fram vegna fréttaflutnings að farið er að lögum varðandi brottvísun parsins og barns þeirra.

Útlendingastofnun vill taka skýrt fram að tekið var tillit til sérstakra aðstæðna fjölskyldunnar við málsmeðferðina en eins og parið hefur sjálft greint frá í fjölmiðlum misstu þau barn á meðgöngu þegar þau dvöldu hér á landi í fyrra sinnið og vilja geta heimsótt leiði þess hér á landi. Til þess að þau gætu komið hingað löglega síðar í þeim tilgangi var tekin ákvörðun um að brottvísa þeim ekki heldur frávísa. Munurinn á frávísun og brottvísun er sá að brottvísun, sem er framkvæmd af lögreglu, felur í sér endurkomubann inn á Schengen-svæðið en með frávísun er veittur frestur til sjálfviljugrar heimfarar og geta einstaklingar sem hefur verið frávísað komið aftur til landsins og dvalið hér til lengri eða skemmri tíma, svo lengi sem þeir fylgi hefðbundnum skilyrðum sem allir sem hingað koma þurfa að hlíta.

Parinu var nokkrum sinnum gerð grein fyrir afleiðingum þess að yfirgefa landið ekki sjálfviljug innan tilskilins frests, jafnt skriflega sem munnlega. Heimilt er að brottvísa einstaklingum sem ekki fara sjálfviljugir úr landi í kjölfar frávísunar og því miður er það lokaúrræðið í svona málum.

Tekið skal fram í ljósi aðstæðna og þess að hinsti hvíldarstaður barns parsins er hér á landi að fella má úr gildi endurkomubann, hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin. Þá er einnig heimilt þegar sérstaklega stendur á að heimila þeim sem vísað hefur verið brott að heimsækja landið án þess þó að endurkomubann falli úr gildi.


Bakgrunnur – Georgía og alþjóðleg vernd

Flóttamanna- og verndarkerfið er neyðarkerfi, ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi. Til þess að eiga rétt á alþjóðlegri vernd, því að teljast flóttafólk og eiga rétt á alþjóðlegri vernd að lögum og samkvæmt alþjóðasáttmálum, þarf fólk að vera í einhvers konar hættu og eiga ekki möguleika á viðunandi vernd og úrræðum í heimalandi sínu. Þetta leiðir bæði af flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og íslenskum lögum sem sett eru á grundvelli hans.

Fyrirliggjandi upplýsingar og mannréttindaskýrslur eru samhljóða um að Georgía sé friðsælt lýðræðisríki þar sem hvorki er stríðsástand né ógnarstjórn. Mannréttindi eru almennt virt og georgísk yfirvöld eru fær um að vernda borgara sína og veita þeim aðstoð. Af þessum sökum er fátítt að georgískum ríkisborgurum sé veitt vernd í Evrópu. Hér á landi hefur umsóknum flestra georgískra ríkisborgara verið synjað í kjölfar skoðunar á aðstæðum einstaklinganna og almennum aðstæðum í Georgíu, en landið er á lista yfir þau ríki sem almennt eru talin örugg. Hvert mál er skoðað sérstaklega og metið á grundvelli atvika þess og séu þær aðstæður uppi að georgískur ríkisborgari sé í hættu í heimalandi sínu og eigi ekki möguleika á vernd þar er honum eða henni veitt alþjóðleg vernd hér á landi eins og lög og alþjóðasáttmálar mæla fyrir um.

Einstaklingar frá Georgíu, sem ekki þurfa á vernd að halda, þurfa dvalarleyfi hér á landi til að mega dvelja hér lengur en þrjá mánuði, eins og ríkisborgarar annarra ríkja utan EES/EFTA-svæðisins. Dvalarleyfi eru meðal annars veitt á grundvelli atvinnuþátttöku, náms og fjölskyldusameiningar og þarf að uppfylla skilyrði slíkra leyfa til að þau séu gefin út.

Vegna umfjöllunar um flutning barnshafandi konu til Albaníu

Details
06 Nóv. 2019

Í ljósi þeirrar miklu umræðu sem orðið hefur um flutning barnshafandi konu til Albaníu í gær vill Útlendingastofnun halda eftirfarandi upplýsingum í málinu til haga.

Útlendingastofnun tekur athugasemdir aðstoðarmanns landlæknis og starfsfólks heilbrigðiskerfisins um að með flutningi konunnar úr landi hafi verið farið gegn ráðleggingum sérfræðinga og heilbrigðisstarfsmanna mjög alvarlega. Hvorki Útlendingastofnun né stoðdeild Ríkislögreglustjóra hafa aðgang að sjúkraskrám eða öðrum upplýsingum heilbrigðiskerfisins og þurfa því að reiða sig á útgefin vottorð lækna til að byggja sínar ákvarðanir á. Það er reynsla stofnunarinnar hingað til að þegar læknar telji óráðlegt af heilbrigðisástæðum að einstaklingur sé fluttur úr landi með flugi þá sé kveðið á um það með skýrum hætti í vottorði og er framkvæmd flutnings frestað í slíkum tilvikum.

Forsaga málsins er sú að konan kom hingað til lands ásamt manni sínum og barni og sótti um alþjóðlega vernd í byrjun október. Málið var afgreitt af Útlendingastofnun með ákvörðun um synjun í forgangsmeðferð þann 11. október. Í framhaldinu var málinu vísað til stoðdeildar Ríkislögreglustjóra sem ber ábyrgð á því að framkvæma ákvarðanir um flutning umsækjenda til síns heima. Undirbúningur stoðdeildar varðandi tilhögun á lögreglufylgd tekur sinn tíma en hann felst meðal annars í vali á ferðaleið og öflun samþykkis erlendra stjórnvalda fyrir gegnumför lögreglumanna í fylgd sem og stjórnvalda í móttökuríki. Þar að auki er það hlutverk starfsmanna stoðdeildar að ganga úr skugga um að ekki séu til staðar ástæður sem koma í veg fyrir framkvæmd flutningsins.

Í því tilviki sem hér er um rætt var það gert með þeim hætti að stoðdeild hafði samband við heilsugæsluna á Höfuðborgarsvæðinu, sem annast þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd samkvæmt samningi við Útlendingastofnun, og fékk þar vottorð frá lækni um að viðkomandi væri gengin rúmar 35 vikur og ferðafær. Vottorðið var gefið út þann 4. nóvember eða degi fyrir brottför, í samræmi við reglur flugfélaga um aldur slíkra vottorða. Undir kvöld þann sama dag fór konan á kvennadeild Landspítala og var útskrifuð eftir miðnætti. Lögreglumenn stoðdeildar fengu tilkynningu um það þegar konan var komin aftur í búsetuúrræðið þar sem hún dvaldi og fóru þangað og ræddu við hana og fengu að sjá vottorð sem gefið var út á Landspítalnum skömmu áður. Þegar þeim var ljóst að á því vottorði kæmi hvorki fram að fyrirhugaður flutningur væri óráðlegur né að flutningur viðkomandi úr landi á þessum tímapunkti myndi stefna öryggi hennar í hættu var ákveðið að fresta flutningnum ekki.

Eins og settur forstjóri Útlendingastofnunar fór yfir í samtölum við fjölmiðla í gær var framkvæmdin í þessu tiltekna máli í samræmi við stefnu stjórnvalda um mannúðlega og skjóta afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd og í samræmi við verklag Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra í slíkum málum.

Útlendingastofnun hefur þegar óskað eftir fundi með embætti landlæknis til að fara yfir þetta mál sem og almennt um það með hvaða hætti skuli standa að öflun læknisvottorða vegna slíkra mála.

Viðtal við Þorstein Gunnarsson, settan forstjóra, í Kastljósi 5. nóvember 2019.

Viðtal við Þorstein Gunnarsson, settan forstjóra, í Harmageddon 6. nóvember 2019.

216 fengið vernd það sem af er ári

Details
15 Okt. 2019

Frá janúar til septemberloka voru umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi 621. Stærstu hópar umsækjenda eru ríkisborgarar Írak, Venesúela og Afganistan. Útlendingastofnun veitti 216 umsækjendum vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á sama tímabili, flestum frá Venesúela, Írak og Afganistan. Samtals hefur fengist niðurstaða í rúmlega 800 mál hjá stofnuninni það sem af er ári. Meðalmálsmeðferðartími umsókna sem afgreiddar voru með ákvörðun voru 157 dagar.

Umsóknir um vernd frá 68 ríkjum

Útlendingastofnun hefur borist 621 umsókn um alþjóðlega vernd frá einstaklingum af 68 þjóðernum það sem af er ári en það eru um 15% fleiri umsóknir en bárust á sama tímabili síðasta ár (jan-sept 2018: 532). Hlutfall umsókna frá svokölluðum öruggum upprunaríkjum er nokkru lægra en á síðasta ári eða tæp 20%.

ums ar q3

Stærstu hópar umsækjenda komu frá Írak (110), Venesúela (84) og Afganistan (42). Helmingur umsækjenda voru fullorðnir karlmenn og rúmur fjórðungur yngri en 18 ára. Frekari upplýsingar um skiptingu umsækjenda um alþjóðlega vernd eftir þjóðerni, kyni og aldri er að finna á tölfræðisíðu vefsins.

ums kyn q3

Lyktir afgreiddra mála

Útlendingastofnun lokaði 816 málum varðandi alþjóðlega vernd á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins. Það athugist að á bak við málin eru færri en 816 einstaklingar þar sem stundum eru teknar fleiri en ein ákvörðun í máli einstaklings.

Um helmingur málanna fékk efnislega meðferð (411 mál) en þar af voru 102 mál afgreidd með ákvörðun í forgangsmeðferð. Málum í forgangsmeðferð fjölgaði töluvert á þriðja ársfjórðungi, þrátt fyrir fækkun umsækjenda frá öruggum upprunaríkjum, þar sem umsóknir ríkisborgara Venesúela eru teknar til forgangsmeðferðar á þeim grundvelli að líkur eru á að þær verði samþykktar.

Í rúmum þriðjungi tilvika (292 mál) var umsækjendum synjað um efnislega meðferð umsóknar. Þar af var 151 umsókn afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 141 umsókn á grundvelli þess að viðkomandi höfðu þegar fengið vernd í öðru ríki. 113 umsóknir fengu svokölluð önnur lok, ýmist vegna þess að umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eða hurfu frá þeim.

lyktir q3

Af þeim 411 umsóknum sem Útlendingastofnun tók til efnislegrar meðferðar lauk rúmum helmingi mála með ákvörðun um veitingu alþjóðlegrar verndar (63), viðbótarverndar (141) og dvalarleyfis af mannúðarástæðum (12). Í 195 tilvikum var umsækjendum synjað um alþjóðlega vernd, viðbótarvernd og mannúðarleyfi.

niðurst efnis q3

Flestar veitingar voru til umsækjenda frá Venesúela (84), Írak (28) og Afganistan (20) en flestir þeirra sem var synjað komu frá Írak (35), Moldóvu (33) og Albaníu (18). Nánari upplýsingar um niðurstöður afgreiddra mála eftir ríkisfangi og kyni er að finna á tölfræðisíðu vefsins.

Málsmeðferðartími

Meðalafgreiðslutími allra umsókna um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2019 voru 157 dagar sem er sambærilegt við meðalafgreiðslutíma ársins 2018. Eins og myndin hér að neðan sýnir styttist meðalafgreiðslutími umsókna sem afgreiddar voru á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar milli fyrsta og annars ársfjórðungs úr 152 dögum í 144 daga en lengdist í verndarmálum úr 104 dögum í 114.

mmmt q3

Á sama tíma styttist meðalafgreiðslutími í hefðbundinni efnismeðferð úr 230 dögum í 215 daga og lengdist í forgangsmeðferð úr fimm dögum í ellefu daga en eins og áður sagði fjölgaði málum í forgangsmeðferð töluvert á þriðja ársfjórðungi.

Fjöldi umsækjenda í þjónustu

Einstaklingum í þjónustu í verndarkerfinu fjölgaði á fyrstu mánuðum ársins en fækkaði aftur um mitt árið.

thj q3

Í byrjun október nutu samtals 577 umsækjendur um vernd þjónustu í kerfinu. 323 einstaklingar voru í þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstaðar og Reykjanesbæjar á grundvelli þjónustusamninga við Útlendingastofnun. Móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar veittu 254 einstaklingum þjónustu.

Skráning í íslenskupróf á haustönn 2019

Details
12 Sept. 2019

Skráning í íslenskupróf fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt hefst 23. september á www.mimir.is.

Próf á haustönn verða sem hér segir:

  • Akureyri, Símey: Þriðjudagur 19. nóvember kl. 13.00
  • Ísafjörður, Fræðslumiðstöð Vestfjarða: Miðvikudagur 20. nóvember kl. 13.00
  • Egilsstaðir, Austurbrú: Fimmtudagur 21. nóvember kl. 13.00
  • Reykjavík, Mímir: Mánudaginn 25. nóvember til föstudagsins 29. nóvember, kl. 9.00 og kl. 13.00

Síðasti skráningardagur er 4. nóvember 2019.

Fleiri greinar...

  1. Opnun seinkar þriðjudaginn 10. september
  2. Upplýsingar fyrir breska ríkisborgara vegna Brexit
  3. 101 fengið vernd það sem af er ári
  4. Breytingar á símaþjónustu
Síða 1 af 32
  • Fyrsta
  • Fyrri
  • 1
  • 2
  • 3
  • 4
  • 5
  • 6
  • 7
  • 8
  • 9
  • 10
  • Næsta
  • Síðasta
  • Útlendingastofnun
  • Skipurit
  • Fréttir
  • Greinar
  • Tölfræði
    • Tölfræði leyfasviðs
    • Tölfræði verndarsviðs
  • Ársskýrslur
  • Gjaldskrá
  • Eyðublöð
  • Afgreiðslutími
  • Samstarfssamningar
  • Lög og reglugerðir
  • Algengar spurningar
  • Hafa samband

Tenglar

  • Dómsmálaráðuneytið
  • Kærunefnd útlendingamála
  • Rauði krossinn
  • Fjölmenningarsetur
  • Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna
  • Mannréttindaskrifstofa
  • Vinnumálastofnun
  • Þjóðskrá
  • Persónuvernd

Upplýsingar

  • Útlendingastofnun
  • Dvalarleyfi
  • Áritanir
  • Ríkisborgararéttur
  • Alþjóðleg vernd

OPNUNARTÍMI

Mánudaga til fimmtudaga 9 - 14
Föstudaga 9 - 12

Sími: 444 0900

Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Staðsetning

Útlendingastofnun | Dalvegi 18 | 201 Kópavogi | Sími: 444 0900 | Netfang: utl@utl.is