Frá janúar til septemberloka voru umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi 621. Stærstu hópar umsækjenda eru ríkisborgarar Írak, Venesúela og Afganistan. Útlendingastofnun veitti 216 umsækjendum vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á sama tímabili, flestum frá Venesúela, Írak og Afganistan. Samtals hefur fengist niðurstaða í rúmlega 800 mál hjá stofnuninni það sem af er ári. Meðalmálsmeðferðartími umsókna sem afgreiddar voru með ákvörðun voru 157 dagar.
Umsóknir um vernd frá 68 ríkjum
Útlendingastofnun hefur borist 621 umsókn um alþjóðlega vernd frá einstaklingum af 68 þjóðernum það sem af er ári en það eru um 15% fleiri umsóknir en bárust á sama tímabili síðasta ár (jan-sept 2018: 532). Hlutfall umsókna frá svokölluðum öruggum upprunaríkjum er nokkru lægra en á síðasta ári eða tæp 20%.

Stærstu hópar umsækjenda komu frá Írak (110), Venesúela (84) og Afganistan (42). Helmingur umsækjenda voru fullorðnir karlmenn og rúmur fjórðungur yngri en 18 ára. Frekari upplýsingar um skiptingu umsækjenda um alþjóðlega vernd eftir þjóðerni, kyni og aldri er að finna á tölfræðisíðu vefsins.

Lyktir afgreiddra mála
Útlendingastofnun lokaði 816 málum varðandi alþjóðlega vernd á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins. Það athugist að á bak við málin eru færri en 816 einstaklingar þar sem stundum eru teknar fleiri en ein ákvörðun í máli einstaklings.
Um helmingur málanna fékk efnislega meðferð (411 mál) en þar af voru 102 mál afgreidd með ákvörðun í forgangsmeðferð. Málum í forgangsmeðferð fjölgaði töluvert á þriðja ársfjórðungi, þrátt fyrir fækkun umsækjenda frá öruggum upprunaríkjum, þar sem umsóknir ríkisborgara Venesúela eru teknar til forgangsmeðferðar á þeim grundvelli að líkur eru á að þær verði samþykktar.
Í rúmum þriðjungi tilvika (292 mál) var umsækjendum synjað um efnislega meðferð umsóknar. Þar af var 151 umsókn afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 141 umsókn á grundvelli þess að viðkomandi höfðu þegar fengið vernd í öðru ríki. 113 umsóknir fengu svokölluð önnur lok, ýmist vegna þess að umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eða hurfu frá þeim.

Af þeim 411 umsóknum sem Útlendingastofnun tók til efnislegrar meðferðar lauk rúmum helmingi mála með ákvörðun um veitingu alþjóðlegrar verndar (63), viðbótarverndar (141) og dvalarleyfis af mannúðarástæðum (12). Í 195 tilvikum var umsækjendum synjað um alþjóðlega vernd, viðbótarvernd og mannúðarleyfi.

Flestar veitingar voru til umsækjenda frá Venesúela (84), Írak (28) og Afganistan (20) en flestir þeirra sem var synjað komu frá Írak (35), Moldóvu (33) og Albaníu (18). Nánari upplýsingar um niðurstöður afgreiddra mála eftir ríkisfangi og kyni er að finna á tölfræðisíðu vefsins.
Málsmeðferðartími
Meðalafgreiðslutími allra umsókna um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2019 voru 157 dagar sem er sambærilegt við meðalafgreiðslutíma ársins 2018. Eins og myndin hér að neðan sýnir styttist meðalafgreiðslutími umsókna sem afgreiddar voru á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar milli fyrsta og annars ársfjórðungs úr 152 dögum í 144 daga en lengdist í verndarmálum úr 104 dögum í 114.

Á sama tíma styttist meðalafgreiðslutími í hefðbundinni efnismeðferð úr 230 dögum í 215 daga og lengdist í forgangsmeðferð úr fimm dögum í ellefu daga en eins og áður sagði fjölgaði málum í forgangsmeðferð töluvert á þriðja ársfjórðungi.
Fjöldi umsækjenda í þjónustu
Einstaklingum í þjónustu í verndarkerfinu fjölgaði á fyrstu mánuðum ársins en fækkaði aftur um mitt árið.

Í byrjun október nutu samtals 577 umsækjendur um vernd þjónustu í kerfinu. 323 einstaklingar voru í þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstaðar og Reykjanesbæjar á grundvelli þjónustusamninga við Útlendingastofnun. Móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar veittu 254 einstaklingum þjónustu.