Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi til allt að eins árs ef umsækjandi er skráður í fullt nám, önnur skilyrði dvalarleyfis eru enn uppfyllt og sýnt er fram á viðunandi námsárangur, þar sem við á. Sjá upplýsingar um reglur skólanna um viðunandi námsárangur fyrir almenna námsmenn hér að neðan.
Nánar um fullnægjandi námsárangur
Fullt nám
Almennir námsmenn
Fyrsta endurnýjun
Síðari endurnýjanir
Reglur skólanna um viðunandi námsárangur við síðari endurnýjun
Undanþágur frá kröfu um námsárangur
Fullt nám
Með fullu námi er átt við samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám sem fram fer á vinnustöðum, eða annað það nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Sá sem sækir einstök námskeið telst ekki stunda fullt nám. Iðnnám og viðurkennt starfsnám á framhaldsskólastigi fellur líka hér undir.
Sækja þarf um endurnýjun dvalarleyfis a.m.k. fjórum vikum áður en gildistími leyfis rennur út. Sé það gert er umsækjanda heimilt að dvelja á Íslandi á meðan umsókn um endurnýjun er til vinnslu hjá Útlendingastofnun. Sé ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis áður en gildistími rennur út verður farið með umsókn eins og um fyrsta leyfi sé að ræða en ekki endurnýjun. Umsókn sem berst eftir að gildistími eldra leyfis er útrunninn verður synjað ef umsækjandi hefur ekki heimild til dvalar á landinu á meðan umsókn er til vinnslu. Sjá nánar um feril umsókna og heimild til dvalar.
Umsækjandi þarf að mæta í eigin persónu við endurnýjun dvalarleyfis, annað hvort í afgreiðslu Útlendingastofnunar eða til sýslumanna utan höfuðborgarsvæðis. Tekin er mynd af umsækjanda og þarf hann að veita rithandarsýnishorn. Umsækjanda ber að hafa vegabréf sitt meðferðis.
Dvalarleyfi er að jafnaði endurnýjað til eins árs í senn en það athugist að heimilt að sækja um dvalarleyfi til styttri tíma, t.d. vegna einnar námsannar.
ALMENNIR NÁMSMENN
Hér að neðan er að finna upplýsingar um hvað telst viðunandi námsárangur, eftir því hvort um fyrstu eða síðari endurnýjun er að ræða, ásamt lista yfir kröfur háskólanna í þessum efnum.
Fyrsta endurnýjun
Við fyrstu endurnýjun telst námsárangur umsækjanda viðunandi hafi hann lokið 75% af fullu námi á námsárinu (þ.e. a.m.k. 44 ECTS samanlagt á námsári). Með námsári er átt við tvær samliggjandi annir, talið frá því að umsækjandi hefur nám. Leggja skal saman námsárangur á tveimur síðustu önnum. Getur verið haustönn fram á vorönn eða vorönn fram á haustönn.
Síðari endurnýjanir
Umsækjandi þarf að hafa lokið viðunandi námsárangri þar sem þess er krafist. Fer það eftir reglum viðkomandi háskóla hvað telst viðunandi námsárangur, sjá lista hér að neðan.
Ef ekki er hægt að sýna fram á skráningu í fullt nám eitt ár fram í tímann vegna þess að ekki hefur verið opnað fyrir skráningu (t.d. þegar nám hefst í janúar og lýkur í desember), mun Útlendingastofnun óska eftir upplýsingum um áframhaldandi skráningu í nám þegar þær upplýsingar liggja fyrir hjá viðkomandi skóla. Umsækjandi telst skráður í nám þegar hann hefur greitt skóla- eða skráningargjöld og er skráður í nám skv. staðfestingu frá viðkomandi skóla. Ef umsækjandi er ekki skráður í áframhaldandi nám eftir að fyrri önninni er lokið verður dvalarleyfi afturkallað.
Reglur skólanna um viðunandi námsárangur við síðari endurnýjanir
Háskóli Íslands: Hafi umsækjandi lokið 67% af fullu námi á námsárinu telst námsárangur viðunandi. Dvalarleyfi er að jafnaði endurnýjað til eins árs, nema þegar umsækjandi hyggst hefja framhaldsnám á seinni önn námsársins. Þá fær umsækjandi leyfið endurnýjað til hálfs árs og skal svo sótt um nýtt leyfi, þegar ljóst er að kröfur um innritun til framhaldsnáms eru uppfylltar.
Háskólinn í Reykjavík: Engin krafa er gerð um viðunandi námsárangur við síðari endurnýjanir.
Háskólinn á Akureyri: Hafi umsækjandi lokið 75% af fullu námi á námsárinu telst námsárangur viðunandi.
Háskólinn á Bifröst: Engin krafa er gerð um viðunandi námsárangur við síðari endurnýjanir.
Kvikmyndaskólinn: Hafi umsækjandi lokið 26 ECTS á önn telst námsárangur viðunandi. Séu einingar færri þarf umsækjandi að leggja fram staðfestingu á því að hann fái að halda áfram í skólanum.
Landbúnaðarháskóli Íslands: Hafi umsækjandi lokið 50% af fullu námi á námsárinu telst námsárangur viðunandi.
Listaháskóli Íslands: Engin krafa er gerð um viðunandi námsárangur við síðari endurnýjanir.
Keilir: Engin krafa er gerð um viðunandi námsárangur við síðari endurnýjanir.
Háskólinn á Hólum: Engin krafa er gerð um viðunandi námsárangur við síðari endurnýjanir.
Menntaskólinn í Kópavogi: Um námsframvindu við síðari endurnýjanir gilda eftirfarandi viðmið:
Að lokinni:
- önn þarf nemandi að hafa lokið a.m.k. 55 einingum
- önn þarf nemandi að hafa lokið a.m.k. 75 einingum
- önn þarf nemandi að hafa lokið a.m.k. 95 einingum
- önn þarf nemandi að hafa lokið a.m.k. 115 einingum
- önn þarf nemandi að hafa lokið a.m.k. 135 einingum
- önn þarf nemandi að hafa lokið a.m.k. 155 einingum
- önn þarf nemandi að hafa lokið a.m.k. 175 einingum
- önn þarf nemandi að hafa lokið a.m.k. 200 einingum
Nemendur með hæga námsframvindu eiga ekki vísa skólavist.
UNDANÞÁGUR FRÁ KRÖFU UM NÁMSÁRANGUR
Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi meistara- og doktorsnema sem vinna að lokaverkefni þrátt fyrir að engum einingum hafi verið lokið á leyfistíma, liggi fyrir staðfesting á námsframvindu frá viðkomandi skóla. Einnig er heimilt að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur þegar um almenna námsmenn er að ræða ef upp koma óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi.