Íslenskur ríkisborgari sem fæddur er erlendis og hefur aldrei átt lögheimili hér á landi getur í vissum tilvikum misst íslenskt ríkisfang við 22 ára aldur. Mögulegt er að sækja um að halda íslensku ríkisfangi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Eftirfarandi skilyrði eiga hér við:
- Umsækjandi er fæddur erlendis og;
- hefur aldrei átt lögheimili hér á landi og;
- hefur búið eða dvalið á Íslandi eða átt samskipti við landið sem talin eru nægja til að halda íslensku ríkisfangi.
Það athugist að sérstök skilyrði gilda fyrir íslenska ríkisborgara sem hafa lögheimili í Danmörku, Noregi, Finnlandi eða Svíþjóð, sbr. 3. málslið 14. gr. A í lögunum. Þar kemur fram að meta skuli lögheimili í norrænu samningsríki í minnst 7 ár til jafns við lögheimili hér á landi.
Afgreiðslugjald
Ekkert gjald er tekið fyrir umsóknir um að halda íslenskum ríkisborgararétti.
Nauðsynleg fylgigögn umsóknar
Upplýsingar um ‚apostille‘ vottun og tvöfalda staðfestingu, löggilta þýðingu og staðfest afrit má finna hér. Það athugist að ekki þarf vottun á íslensk vottorð.
- Umsókn um að halda íslenskum ríkisborgararétti. Í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda.
- Afrit úr vegabréfi ásamt rithandarsýnishorni.
- Afrit úr vegabréfi íslensks foreldris.
- Staðfest afrit af frumriti fæðingarvottorðs. Frumritið skal vera vottað með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af því staðfest afrit.
- Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á fæðingarvottorði. Á aðeins við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli.
- Staðfest afrit fæðingarvottorðs íslensks foreldris.
- Staðfest afrit af hjúskaparvottorði íslensks foreldris, ef við á.
- Staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda á hjúskaparvottorði íslensks foreldris, ef við á. Þetta á við ef erlend vottorð eru á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli.
- Yfirlýsing íslensks foreldris um það hvort tekið hafi verið upp erlent ríkisfang. Óskað er eftir upplýsingum um hvenær og með hvaða hætti íslenskt foreldri tók erlent ríkisfang, ef við á.
- Búsetuvottorð frá norrænu ríki, ef við á.
- Upplýsingar frá tveimur einstaklingum búsettum á Íslandi um tengsl umsækjanda við landið. Fram skulu koma upplýsingar um tengsl umsagnaraðila við umsækjanda. Umsagnir skulu vera dagsettar og undirritaðar, auk þess sem kennitala og símanúmer umsagnaraðila skulu koma fram.
- Önnur gögn sem staðfesta tengsl umsækjanda við landið. Staðfesting á skólagöngu eða vinnu á Íslandi getur til dæmis átt við hér.
Viðbótargögn ef forsjárforeldri sækir um fyrir barn yngra en 18 ára
- Samþykki forsjáraðila. Á aðeins við ef báðir foreldrar fara með forsjá barns.
- Forsjárgögn. Á aðeins við ef annað foreldri fer með forsjá barns. Frumrit gagna skulu vera vottuð með ‚apostille‘ vottun eða tvöfaldri staðfestingu, og síðan tekið af þeim staðfest afrit. Ef gögnin eru á öðru máli en ensku eða Norðurlandamáli skal fylgja staðfest afrit eða frumrit þýðingar löggilts skjalaþýðanda.
- Samþykki barns á aldrinum 12-18 ára.