Útlendingastofnun er heimilt að taka umsóknir um dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku til flýtimeðferðar gegn sérstöku þjónustugjaldi.
Þetta á við um dvalarleyfi:
-
vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar,
-
vegna skorts á starfsfólki,
-
fyrir íþróttafólk,
-
fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- og þjónustusamnings.
Heimild til dvalar
Reglur um heimild til dvalar gilda fyrir alla umsækjendur um dvalarleyfi, einnig þá sem sækja um flýtimeðferð. Umsækjandi skal sjálfur athuga hvort hann hafi heimild til dvalar þegar umsókn er lögð fram og hún er til vinnslu, og þarf að vera meðvitaður um að vinnsla umsóknar geti verið stöðvuð eða umsókn synjað hafi umsækjandi ekki heimild til dvalar á landinu.
Fylgigögn umsóknar á ábyrgð umsækjanda
Með umsókn skulu fylgja öll þau gögn sem Útlendingastofnun gerir kröfu um til staðfestingar á því að skilyrði dvalarleyfis séu uppfyllt. Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram nauðsynleg fylgigögn umsóknar. Ef fullnægjandi gögn berast ekki með umsókninni getur það leitt til þess að afgreiðsla umsóknar tefjist eða að umsókninni verði synjað. Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.
Vinnumálastofnun
Vinnumálastofnun sér um útgáfu atvinnuleyfa og áframsendir Útlendingastofnun umsóknir um atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar til afgreiðslu. Það er forsenda útgáfu dvalarleyfis vegna atvinnuþátttöku að Vinnumálastofnun hafi veitt atvinnuleyfið.
Gátlisti
Umsækjandi skal styðjast við gátlista og leggja hann fram með umsókn og fylgigögnum hennar.
Þjónustugjald
Þjónustugjaldið er kr. 45.000 og er það til viðbótar við gjald fyrir umsókn um dvalarleyfi sem er kr. 15.000.
Sé beiðni um flýtimeðferð umsóknar um dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku póstlögð skal senda afrit greiðslukvittunar á netfang Útlendingastofnunar This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
. Athugið að við millifærslu í banka þarf að koma fram í skýringu fyrir hvern er greitt, þ.e. fæðingardagur umsækjanda.
Afgreiðsla umsóknar
- Haft verður samband við umsækjanda / umboðsmann vegna umsóknar innan 7-10 virkra daga frá móttöku umsóknar.
- Umsókn verður afgreidd innan 30 daga ef öll gögn fylgja umsókn og þau eru fullnægjandi.
- Ef umsækjandi þarf áritun til að koma til landsins er beiðni um D-áritun send til viðkomandi sendiráðs eftir að leyfi hefur verið veitt. Umsækjandi verður að panta tíma hjá sendiráðinu og getur verið breytilegt hversu langan tíma tekur að afgreiða áritunina. Útlendingastofnun hefur engin áhrif á afgreiðslutíma sendiráða.